Gjör rétt, þol ei órétt

Jóhannes S. Kjarval Um þessa helgi fer fram landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Þar verður áreiðanlega mikið fjallað um skattamál, frelsi, réttlæti og bætt rekstrarumhverfi fyrirtækja svo eitthvað sé nefnt. Vafalaust eiga margir eftir að njóta góðra verka flokksins í framtíðinni og loforðaflóran verður fjölskrúðug. Svo verður klappað og klappað fyrir góðum árangri. Allt eins og vera ber. Skrifari leyfir sér að gera alvarlegar athugasemdir við siðferði flokksins í tveimur málum sem hann hafði nýlega afgerandi áhrif á og varða skattlagningu og innheimtu gjalda.

Um langt árabil hefur átt að innheimta svokallað höfundarréttargjald af sölu eldri listaverka. Slíkt gjald er réttlætanlegt sé það hóflegt, en hafa verður í huga að gjaldið hefur áhrif á söluverð verka og þar með fá seljendur lægra verð fyrir vikið. Seljendurnir eru svo í flestum tilfellum eldra fólk og þannig virkar gjaldið sem óbeinn skattur á sparnað þeirra.

Gjaldið hérlendis hefur verið það hæsta sem um getur í veröldinni eða 10%. Hvergi annars staðar hefur það verið hærra en 5%. Fyrir rúmu ári var lögum um gjaldheimtuna breytt að tilskipan Evrópusambandsins. Samkvæmt þeirri tilskipan var gjaldið lækkað á verkum sem kosta meira en 3000 Evrur en er enn 10% á verkum sem kosta minna en það. Við eigum því enn heimsmet í þessari gjaldainnheimtu. Af hverju? Formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem lagði blessun sína yfir þessa óheyrilegu gjaldtöku, er sjálfstæðismaðurinn Pétur Blöndal. Þarna gafst honum kjörið tækifæri til að leiðrétta óréttláta gjaldtöku og sýna meintan vilja til skattalækkana í verki en gerði það ekki. Lagt er til að fólk minnist þessa þegar Pétur Blöndal ræðir næst um að lækkun skatta og gjalda.*

Sérstakt hagsmunafélag, Myndhöfundasjóður Íslands eða Myndstef, heldur utan um innheimtu gjaldsins. Þegar lögum um höfundarrétt var breytt á fyrra ári, m.a. í tengslum við fyrrnefnda Evróputilskipan, var sett inn í lögin ákvæði um að sé gjaldið ekki innheimt, þá sé Myndstefi frjálst að áætla gjöldin á þá sem þau eiga að innheimta og er sú áætlun aðfararhæf. Þetta er auðvitað algjörlega galið ákvæði og mun vera einsdæmi í íslenskum lögum að hagsmunasamtök fái slíkt vald. Skrifari veltir því reyndar fyrir sér hvernig á því stendur að Samtök atvinnulífsins láti Alþingi komast upp með að setja slíkt ákvæði í lög, sem hæglega getur orðið fordæmi í öðrum lagasetningum þótt síðar verði. Í framhjáhlaupi má svo geta þess að Myndstef er þegar farið að misbeita ákvæðinu til fjárkúgunar og byrjaði á því áður en lögin tóku gildi. Formaður Menntamálanefndar Alþingis, sem lagði blessun sína yfir þessa lagasetningu, er sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson. Skrifari vonar innilega að Sigurður Kári hafi ekki skilið hvað hann lagði blessun sína yfir, ef hann hefur skilið það á hann að dómi skrifara varla heima í Sjálfstæðisflokknum. Lagt er til að fólk minnist þessa þegar Sigurður Kári ræðir næst um frelsi og réttlæti. *

Skrifari ákvað ungur að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og hefur stutt flokkinn til góðra verka síðan. Þess vegna hryggir það meira en orð fá lýst þegar flokkurinn bregst hugsjónum sínum á jafn hrapallegan hátt. Hvað varð af kjörorði flokksins: Gjör rétt, þol ei órétt, er það enn við lýði eða er það bara grín?

Sagt er að geri einhver mistök, geri sá hinn sami enn meiri mistök ef hann leiðréttir ekki fyrri mistökin. Á þetta ekki líka við um Sjálfstæðisflokkinn, ber honum ekki að leiðrétta augljós mistök?

Skrifari er þeirrar skoðunar að Pétur Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson þurfi að taka sig á. Það á ekki að tala með hægri hluta heilans en setja svo lög með þeim vinstri. Er það ekki réttlætismál að frá landsfundinum komi ályktun um að þessum lagaákvæðum verði breytt við fyrsta tækifæri sem flokkurinn fær til þess?

* Lögin voru samþykkt á Alþingi, enda gerðu nefndir þingsins ekki athugasemdir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband