Undirritaður verður alltaf glaður og þakklátur ef einhver bregst við skrifum hans, hvort heldur vel eða illa. Í Blaðinu í dag (25/4) er greinarkorn eftir Áslaugu Thorlacius þar sem hún skammast svolítið vegna greinar sem birtist í síðasta Listapósti, sem Gallerí Fold gefur út, en þar var fjallað um tvö mál sem varða höfundarrétt.
Annars vegar þá staðreynd að höfundarréttargjald, sem lagt er ofaná söluverð eldri myndlistar á Íslandi, er að hluta 100% hærra en í nokkru öðru landi. Hins vegar ákvæði í nýjum lögum um að Myndstef, sem er hagsmunafélag sem heldur utan um innheimtu höfundarréttargjaldanna, hefur fengið leyfi til að áætla gjöld á þá sem stunda listmunasölu og er áætlunin aðfararhæf.
Það þarf nú ekki sérstakt gáfnafar til að sjá að hvorugt af þessu er í lagi. Ef fólki finnst í lagi að tvöfalt hærra gjald sé lagt á listmunkaup hérlendis en í nokkru öðru landi, er þá ekki líka í lagi að matvara sé dýrari hér en víðast hvar annars staðar og að lyfjaverð á Íslandi sé það næst hæsta í Evrópu? Ef fólki finnst í lagi að hagsmunasamtök fái leyfi til að áætla gjöld á fyrirtæki í landinu og að áætlunin sé aðfarhæf, ja þá er eitthvað að. Er þá ekki líka í lagi að KR og Breiðablik fái slíkt vald til að innheimta félagsgjöldin? Eða Orkuveitan til að innheimta áætlaða orkunotkun? Eða bara Áslaug sjálf til að innheimta félagsgjöldin hjá SÍM? Þessu arfavitlausa ákvæði, sem á sér ekki neina hliðstæðu í lögum, verður auðvitað að breyta og það verður gert.
Í umræddri grein var lítið minnst á Myndstef nema það að samtökin reyndu að nota áætlunarákvæðið til fjárkúgunar áður en lögin tóku gildi og hafa misbeitt því aftur síðan. Ef ég hefði látið barninu mínu í té verkfæri sem síðar var notað til að kúga fé út úr fólki, hefði ég tekið verkfærið aftur og það hefði Áslaug áreiðanlega gert líka ef ég þekki hana rétt. Það verður líka gert í þessu tilfelli.
Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Myndstef hefur reynt að kúga fé út úr Fold og nýlega féll dómur í slíku máli galleríinu í vil. Sú aðför kostaði Myndstef stórfé. Vissirðu það Áslaug?
Þá segir Áslaug að Gallerí Fold hafi ekki innheimt höfundarréttargjaldið í 20 ár. Þar fór í verra. Ekki eru nema 10 ár síðan Fold hóf sölu á eldri verkum, svo varla eru árin fleiri en það. Strax skal tekið fram að innheimta gjaldsins er tvíþætt, annars vegar á uppboðum og hins vegar af öðrum verkum sem keypt eru fyrir milligöngu Foldar.
Á uppboðunum hefur gjaldið ávallt verið innheimt og að sjálfsögu skilað.
Af öðrum verkum var gjaldið innheimt og skilað fyrstu 3-4 árin en ekki eftir árið 2000 eða 2001. Ástæðan var sú að Myndstef innheimti gjaldið ekki hjá samkeppnisaðilum Foldar. Við sömdum við Myndstef um áframhaldandi innheimtu um leið og málin væru komin í lag hjá öðrum söluaðilum, en það gerðist einfaldlega ekki. Ég get ómögulega séð að það sé okkur að kenna.
Myndstef teygir reglur og lög á ýmsan hátt. Sem stendur er Gallerí Fold eini aðilinn sem innheimtir þetta gjald á uppboðum. Ekkert í lögum undanskilur aðra aðila, hvorki fyrirtæki, stofnanir, einstaklinga eða félagasamtök frá innheimtu. Samt hefur Myndstef ekki séð ástæðu til að innheimta gjöldin hjá öðrum en okkur. Þannig brýtur Myndstef á Galleríi Fold og hefur gert í áravís. Það er auðvitað ekki sjálfgefið að Fold haldi innheimtunni áfram að óbreyttum aðstæðum. Eitt verður yfir alla að ganga.
Höfundarréttargjaldið á að vera nokkurs konar lífeyrissjóður fyrir myndlistarfólk og ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar gæti það komið mörgum á óvart að trúlega rennur aðeins um 10% innkomunnar til núlifandi höfunda. Myndstef tekur 20% til sín og afgangurinn rennur svo til ættingja látinna höfunda. Dæmi er um að 7. og 8. ættliður skipti gjaldinu. Þannig er nú þetta.
Hvað framtíðina varðar er ég sannfærður um að best væri að Myndstef hefði sjálft frumkvæði um breytingu laganna í þá veru að hæstu gjöldin verði færð niður og að ákvæðið um áætlun gjalda verði fellt út. Þá myndi skapast friður og sátt um þessa innheimtu öllum til góðs.
Tryggvi P. Friðriksson.
Flokkur: Menning og listir | 27.4.2007 | 17:03 | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.