Færsluflokkur: Menning og listir

Safnasafnið á Svalbarðsströnd stækkar

safnasafnidFrá árinu 1995 hafa hjónin Niels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir rekið sérstakt og skemmtilegt safn á Svalbarðsströnd norðan Akureyrar. Þar hefur verið sýnd alls konar alþýðulist innanum og með list starfandi myndlistarmanna. Til að mynda er þar veglegt brúðusafn, safn leikfanga og umtalsvert safn verka eftir næfista eða einfara, Þá státar Safnasafnið af stóru fræðslubókasafni sem er aðgengilegt almenningi.

Safnið hefur fram að þessu verið rekið í glæsilegu einbýlishúsi sem þau hjón festu kaup á en nú hefur gamalt og fallegt verslunarhús Kaupfélags Svalbarðsstrandar verið flutt að safnhúsinu og byggð tengibygging á mill húsanna. Þessi viðbót var tekin í notkun 23. júní s.l. og verður ekki annað sagt en afar vel hafi takist til. Viðbótin gjörbreytir sýningaraðstöðunni sem mun vera tæplega 700 fermetrar. Meðal nýjunga í safninu eru munir og gamall vefnaðarvörulager úr verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar sem stofnuð var í Reykjavík 1907 og starfaði þar í hartnær eina öld.  

Það er afar ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist til með þetta safn og full ástæða til að óska þeim hjónum Nielsi og Magnhildi til hamingju á þessum tímamótum. Ferðalöngum er ráðlagt að hafa viðdvöl í safninu og benda má á að börnum ætti ekki að leiðast þar.


Frá kálfi til kálfs

Undirritaður verður alltaf glaður og þakklátur ef einhver bregst við skrifum hans, hvort heldur vel eða illa. Í Blaðinu í dag (25/4) er greinarkorn eftir Áslaugu Thorlacius þar sem hún skammast svolítið vegna greinar sem birtist í síðasta Listapósti, sem Gallerí Fold gefur út, en þar var fjallað um tvö mál sem varða höfundarrétt.

Annars vegar þá staðreynd að höfundarréttargjald, sem lagt er ofaná söluverð eldri myndlistar á Íslandi, er að hluta 100% hærra en í nokkru öðru landi. Hins vegar ákvæði í nýjum lögum um að Myndstef, sem er hagsmunafélag sem heldur utan um innheimtu höfundarréttargjaldanna, hefur fengið leyfi til að áætla gjöld á þá sem stunda listmunasölu og er áætlunin aðfararhæf.

Það þarf nú ekki sérstakt gáfnafar til að sjá að hvorugt af þessu er í lagi. Ef fólki finnst í lagi að tvöfalt hærra gjald sé lagt á listmunkaup hérlendis en í nokkru öðru landi, er þá ekki líka í lagi að matvara sé dýrari hér en víðast hvar annars staðar og að lyfjaverð á Íslandi sé það næst hæsta í Evrópu? Ef fólki finnst í lagi að hagsmunasamtök fái leyfi til að áætla gjöld á fyrirtæki í landinu og að áætlunin sé aðfarhæf, ja þá er eitthvað að. Er þá ekki líka í lagi að KR og Breiðablik fái slíkt vald til að innheimta félagsgjöldin? Eða Orkuveitan til að innheimta áætlaða orkunotkun? Eða bara Áslaug sjálf til að innheimta félagsgjöldin hjá SÍM? Þessu arfavitlausa ákvæði, sem á sér ekki neina hliðstæðu í lögum, verður auðvitað að breyta og það verður gert.

Í umræddri grein var lítið minnst á Myndstef nema það að samtökin reyndu að nota áætlunarákvæðið til fjárkúgunar áður en lögin tóku gildi og hafa misbeitt því aftur síðan.  Ef ég hefði látið barninu mínu í té verkfæri sem síðar var notað til að kúga fé út úr fólki, hefði ég tekið verkfærið aftur og það hefði Áslaug áreiðanlega gert líka ef ég þekki hana rétt. Það verður líka gert í þessu tilfelli.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Myndstef hefur reynt að kúga fé út úr Fold og nýlega féll dómur í slíku máli galleríinu í vil. Sú aðför kostaði Myndstef stórfé. Vissirðu það Áslaug?

Þá segir Áslaug að Gallerí Fold hafi ekki innheimt höfundarréttargjaldið í 20 ár. Þar fór í verra. Ekki eru nema 10 ár síðan Fold hóf sölu á eldri verkum, svo varla eru árin fleiri en það. Strax skal tekið fram að innheimta gjaldsins er tvíþætt, annars vegar á uppboðum og hins vegar af öðrum verkum sem keypt eru fyrir milligöngu Foldar.

Á uppboðunum hefur gjaldið ávallt verið innheimt og að sjálfsögu skilað.

Af öðrum verkum var gjaldið innheimt og skilað fyrstu 3-4 árin en ekki eftir árið 2000 eða 2001. Ástæðan var sú að Myndstef innheimti gjaldið ekki hjá samkeppnisaðilum Foldar. Við sömdum við Myndstef um áframhaldandi innheimtu  um leið og málin væru komin í lag hjá öðrum söluaðilum, en það gerðist einfaldlega ekki. Ég get ómögulega séð að það sé okkur að kenna.

Myndstef teygir reglur og lög á ýmsan hátt. Sem stendur er Gallerí Fold eini aðilinn sem innheimtir þetta gjald á uppboðum. Ekkert í lögum undanskilur aðra aðila, hvorki fyrirtæki, stofnanir, einstaklinga eða félagasamtök frá innheimtu. Samt hefur Myndstef ekki séð ástæðu til að innheimta gjöldin hjá öðrum en okkur. Þannig brýtur Myndstef á Galleríi Fold og hefur gert í áravís. Það er auðvitað ekki sjálfgefið að Fold haldi innheimtunni áfram að óbreyttum aðstæðum. Eitt verður yfir alla að ganga.

Höfundarréttargjaldið á að vera nokkurs konar lífeyrissjóður fyrir myndlistarfólk og ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar gæti það komið mörgum á óvart að trúlega rennur aðeins um 10% innkomunnar til núlifandi höfunda. Myndstef tekur 20% til sín og afgangurinn rennur svo til ættingja látinna höfunda. Dæmi er um að 7. og 8. ættliður skipti gjaldinu. Þannig er nú þetta.

Hvað framtíðina varðar er ég sannfærður um að best væri að Myndstef hefði sjálft frumkvæði um breytingu laganna í þá veru að hæstu gjöldin verði færð niður og að ákvæðið um áætlun gjalda verði fellt út. Þá myndi skapast friður og sátt um þessa innheimtu öllum til góðs.

Tryggvi P. Friðriksson.

 


Gjör rétt, þol ei órétt

Jóhannes S. Kjarval Um þessa helgi fer fram landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Þar verður áreiðanlega mikið fjallað um skattamál, frelsi, réttlæti og bætt rekstrarumhverfi fyrirtækja svo eitthvað sé nefnt. Vafalaust eiga margir eftir að njóta góðra verka flokksins í framtíðinni og loforðaflóran verður fjölskrúðug. Svo verður klappað og klappað fyrir góðum árangri. Allt eins og vera ber. Skrifari leyfir sér að gera alvarlegar athugasemdir við siðferði flokksins í tveimur málum sem hann hafði nýlega afgerandi áhrif á og varða skattlagningu og innheimtu gjalda.

Um langt árabil hefur átt að innheimta svokallað höfundarréttargjald af sölu eldri listaverka. Slíkt gjald er réttlætanlegt sé það hóflegt, en hafa verður í huga að gjaldið hefur áhrif á söluverð verka og þar með fá seljendur lægra verð fyrir vikið. Seljendurnir eru svo í flestum tilfellum eldra fólk og þannig virkar gjaldið sem óbeinn skattur á sparnað þeirra.

Gjaldið hérlendis hefur verið það hæsta sem um getur í veröldinni eða 10%. Hvergi annars staðar hefur það verið hærra en 5%. Fyrir rúmu ári var lögum um gjaldheimtuna breytt að tilskipan Evrópusambandsins. Samkvæmt þeirri tilskipan var gjaldið lækkað á verkum sem kosta meira en 3000 Evrur en er enn 10% á verkum sem kosta minna en það. Við eigum því enn heimsmet í þessari gjaldainnheimtu. Af hverju? Formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem lagði blessun sína yfir þessa óheyrilegu gjaldtöku, er sjálfstæðismaðurinn Pétur Blöndal. Þarna gafst honum kjörið tækifæri til að leiðrétta óréttláta gjaldtöku og sýna meintan vilja til skattalækkana í verki en gerði það ekki. Lagt er til að fólk minnist þessa þegar Pétur Blöndal ræðir næst um að lækkun skatta og gjalda.*

Sérstakt hagsmunafélag, Myndhöfundasjóður Íslands eða Myndstef, heldur utan um innheimtu gjaldsins. Þegar lögum um höfundarrétt var breytt á fyrra ári, m.a. í tengslum við fyrrnefnda Evróputilskipan, var sett inn í lögin ákvæði um að sé gjaldið ekki innheimt, þá sé Myndstefi frjálst að áætla gjöldin á þá sem þau eiga að innheimta og er sú áætlun aðfararhæf. Þetta er auðvitað algjörlega galið ákvæði og mun vera einsdæmi í íslenskum lögum að hagsmunasamtök fái slíkt vald. Skrifari veltir því reyndar fyrir sér hvernig á því stendur að Samtök atvinnulífsins láti Alþingi komast upp með að setja slíkt ákvæði í lög, sem hæglega getur orðið fordæmi í öðrum lagasetningum þótt síðar verði. Í framhjáhlaupi má svo geta þess að Myndstef er þegar farið að misbeita ákvæðinu til fjárkúgunar og byrjaði á því áður en lögin tóku gildi. Formaður Menntamálanefndar Alþingis, sem lagði blessun sína yfir þessa lagasetningu, er sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson. Skrifari vonar innilega að Sigurður Kári hafi ekki skilið hvað hann lagði blessun sína yfir, ef hann hefur skilið það á hann að dómi skrifara varla heima í Sjálfstæðisflokknum. Lagt er til að fólk minnist þessa þegar Sigurður Kári ræðir næst um frelsi og réttlæti. *

Skrifari ákvað ungur að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og hefur stutt flokkinn til góðra verka síðan. Þess vegna hryggir það meira en orð fá lýst þegar flokkurinn bregst hugsjónum sínum á jafn hrapallegan hátt. Hvað varð af kjörorði flokksins: Gjör rétt, þol ei órétt, er það enn við lýði eða er það bara grín?

Sagt er að geri einhver mistök, geri sá hinn sami enn meiri mistök ef hann leiðréttir ekki fyrri mistökin. Á þetta ekki líka við um Sjálfstæðisflokkinn, ber honum ekki að leiðrétta augljós mistök?

Skrifari er þeirrar skoðunar að Pétur Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson þurfi að taka sig á. Það á ekki að tala með hægri hluta heilans en setja svo lög með þeim vinstri. Er það ekki réttlætismál að frá landsfundinum komi ályktun um að þessum lagaákvæðum verði breytt við fyrsta tækifæri sem flokkurinn fær til þess?

* Lögin voru samþykkt á Alþingi, enda gerðu nefndir þingsins ekki athugasemdir.


Til hamingju með afmælið

Til hamingju með afmælið Tryggvi.

Þar sem þú hefur mjög ákveðnar skoðanir á ýmsum málefnum fannst mér við hæfi að gefa þér þessa blogsíðu. Ég vona að Tilveran komi til með að verða góður vettvangur fyrir allar þínar skemmtilegu greinar.

Kveðja,
Jóhann Hansen


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband